Rekkaskátar
Öflugt skátastarf í 70 ár.
Rekkaskátastarfið
Rekkaskátum býðst fjöldi nýrra tækifæra í eigin starfi og byrja að spreyta sig á hinum ýmsu ábyrgðarhlutverkum innan skátahreyfingarinnar. Rekkaskátar starfa gjarnan saman þvert á skátafélög og byrja þar að auki í auknum mæli að starfa með róverskátum (19 – 25 ára). Rekkaskátum býðst að taka þátt í ýmsum spennandi viðburðum bæði innanlands og utan og byrja rekkaskátar því gjarnan að mynda tengsl við aðra skáta þvert yfir hnöttinn. Á rekkaskátaaldri byrja flestir að sinna foringjastörfum eða öðrum hlutverkum innan skátafélaganna og því er boðið upp á fjölda námskeiða í leiðtogaþjálfun. Það er gífurlega reynslu að sækja í rekkaskátastarfið, reynslu sem mun nýtast við leik og launuð störf um ókomna tíð.
Rekkaskátar hittast reglulega yfir starfsárið. Í rekkaskátum er hópskiptingin ekki jafn formföst, rekkaskátar taka sig saman um þá dagskrá sem þau hafa áhuga á og starfa því jafnvel í mörgum hópum samtímis og ólíkum hópum yfir árið. Rekkaskátar skipuleggja líka og framkvæma einstaklingsmiðaðri dagskrá og verkefni en áður, sérstaklega þau sem vinna að forsetamerkinu.