SAGA SKÁTAFÉLAGSINS SKJÖLDUNGA

Sumarið 1955 var mesta rigningarsumar síðustu aldar og rigndi samfellt allt sumarið. Í fornum sögum eru slíkir viðburðir oft tengdir stórmerkum og minnisverðum atburðum og fer ekki milli mála að mikil tíðindi höfðu gerzt þá um vorið. Hinn 30. marz komu saman nokkrir ungir skátar sem vildu láta að sér kveða og starfa saman í nýrri skátasveit. Þeir fengu til liðs við sig nýja félaga og fengu eldri skáta til að taka að sér sveitarforingjastörf. Fengu þeir samþykki stjórnar Skátafélags Reykjavíkur (SFR) og hlaut sveitin nafnið Skjöldungasveit. Fyrsti sveitarforingi var Hafsteinn Eyjólfsson og helztu frumkvöðlar voru þeir Jón Hákon Magnússon, Tómas Hjaltason, Úlfar Guðmundsson, Eysteinn Sigurðsson, Jónas Gústafsson, Halldór Ármannsson, Sveinn Björnsson og Jón Stefánsson svo nokkrir stofnendanna séu nefndir. Ári síðar var ákveðið að sveitir Skátafélags Reykjavíkur breyttust í deildir með einni eða fleiri skátasveitum og tók sú skipan gildi árið 1957 en fyrsti deildarforingi Skjöldunga var Gísli Kristjánsson. Ein sveit var í Skjöldungum til hausts árið 1959 er Minkasveit var stofnuð. Hin gamla Skjöldungasveit hét einfaldlega fyrsta sveit og í henni var stofnaður árið 1959 skátaflokkurinn Fóstbræður og ef betur er að gáð segir í flokks-söng Fóstbræðra:

Við Fóstbræður í fyrstu sveit
við erum flokka beztir.
Og oft við förum upp í sveit
og erum jarðar gestir.
Þá tjöldum við í grænni laut
og gistum við náttúrunnar skaut
Við leikum og syngjum
og prófanum kyngjum.
Það gerum við Fóstbræður
fyrstu sveit.

Það var þó ekki fyrr en haustið 1961 að Fóstbræður gengu í Minkasveit. Skjöldungadeild var fremur fámenn og þurfti að taka á honum stóra sínum í flestum verkefnum, því yngsta deild SFR vildi ekki láta sitt eftir liggja í skátun. Þegar haustið 1957 hófu Skjöldungar útgáfu á myndarlegu deildarblaði og stigu þar fram á ritvöllinn í fyrsta sinn ýmsir ágætir blaðamenn og fræðimenn. Sannaðist vel á fyrstu tíu árum deildarinnar að Skjöldungar voru fremstir í flokki í skátastörfum, þótt um sinn væru félagar ekki margir í deildinni. 

Á tímabilinu frá stofnun deildarinnar til ársins 1964 voru deildarforingjar þeir Hallgrímur Sveinsson, Óli Kristinsson og Hákon J. Hafliðason. Markvisst var unnið að auknum gæðum skátastarfsins og þar munaði um undirbúningi ylfinganna hjá Nínu Hjaltadóttur og þeim bakhjarli sem félagið átti í Björgvin Magnússyni DCC skólastjóra Skátaskólans á Úlfljótsvatni. Foringjar úr Skjöldungum voru duglegir að sækja námskeið. Nefna má að Óli Kristinsson deildarforingi sótti fyrsta Gilwellnámskeiðið árið 1959 og varð einn hinna fyrstu til að ljúka Gilwellprófi. Helztu foringjar Skjöldunga sóttu foringjanámskeið SFR og BÍS (undirbúningsnámskeið fyrir Gilwellnámskeið) sumarið og haustið 1961.

Nokkur kynslóðaskipti urðu í Skjöldungadeild um 1960. Hurfu þá eins og gengur ýmsir frumkvöðlar úr starfi og nýir menn tóku við. Má segja að skátarnir í Minkasveit eins og hún var skipuð 1962-1965 hafi myndað kjarnann í foringjaliði Skjöldunga fram undir 1975 og margir gegni ennþá mikilvægum foringjastörfum.

Árið 1962 var haldið veglegt Landsmót skáta á Þingvöllum til að minnast hálfrar aldar afmælis skátahreyfingarinnar á Íslandi. Vandað var til alls undirbúnings og önnuðust Skjöldungar sögusýninguna 50 skátaár á mótinu. Fóstbræður í Minkasveit sigruðu í flokkakeppni mótsins og var það upphaf þess að skátaflokkar úr Skjöldungum urðu mjög sigursælir í landsflokkakeppnum og á landsmótum fram um 1970. Nokkur deyfð var yfir starfinu árið 1963 en þreytu gætti að loknu því mikla verki við landsmótsundirbúning 1962. Þann vetur var samt lagður grunnur að uppbyggingu deildarinnar á komandi árum. Ákveðið var að minnast fimm ára afmælis Minkasveitar með því að boða til Minkamóts í Borgarvík og áætlanir gerðar um stækkun sveitarinnar í framhaldi af mótinu. Minkamótið tókst afar vel og var mikill áhugi í verðandi foringjum haustið 1964. Þá var stofnuð ylfingasveitin Farúlfar, en ylfingastarfið hafði verið fremur óskipulagt fram að þessu. Matthías G. Pétursson tókst með miklum ágætum að koma ylfingasveitinni á fót og leiddi hann ylfingastarf Skjöldunga samfleytt í 8 ár. Hefur hann æ síðan verið helzti foringi yngri skáta í Skjöldungum. Vorið 1965 var Bjórasveit stofnuð og hafði þá á fáum mánuðum þrefaldast félagatala Skjöldunga.

Fram til 1. desember 1966 starfaði Skjöldungadeild í Skátaheimilinu við Snorrabraut, en fyrrnefndan fullveldisdag 1966 var flutt inn í nýinnréttuð húsakynni í skátaheimilinu við Dalbraut. Þar óx starfsemin talsvert og óðar en varði voru komnir 6 skátaflokkar í hvora sveit, og árið 1966 var stofnuð dróttskátasveitin Sagittarius. Kristinn M. Kristinsson tók við deildarforingjastarfi af Hákoni J. Hafliðasyni árið 1965 og gegndi hann því starfi til 22. febrúar 1966 en þá tók Ólafur Ásgeirsson við en hann hafði verið sveitarforingi Minkasveitar frá hausti 1963. Grímur Valdimarsson varð deildarforingi haustið 1968. Var þá byltingarvetur og tók hann sér nafnið sól-deildarforingi og var um sumarið haldið sólríkasta skátamót til þessa, MINKAMÓT 1968 í Borgarvík. Mótið var í indíánastíl og tók öðrum mótum fram um flest…

Á þessum árum voru margir af foringjum Skjöldunga virkir leiðbeinendur á námskeiðum; ritsstjóri og ritnefnd Skátablaðsins var úr Skjöldungum og voru Skjöldungar liðtækir á fleiri sviðum. Árið 1969 var ákveðið að slíta skátafélögum í Reykjavík, Kvenskátafélagi Reykjavíkur og Skátafélagi Reykjavíkur, og sameina drengi og stúlkur í hverfafélög. Urðu Skjöldungar samkvæmt því deild í Skátafélaginu Dalbúum 29. marz árið 1969. Af ýmsum ástæðum var síðan ákveðið um sumarið 1969 að stofna Skátafélagið Skjöldunga í Vogahverfi og hefja erfiða baráttu fyrir tilvist hins nýja félags. Barátta fárra við erfið verkefni hafði löngum verið hlutskipti Skjöldungadeildar og var því ekki bilbugur á aðstandendum hins nýja félags, en Björgvin Magnússon kom til starfa í félaginu og varð félagsforingi. Voru fljótlega stofnaðar tvær nýjar skátasveitir; Sporrakkar og Melrakkar, sem þegar voru fullmannaðar. Ylfingasveitin Farúlfar varð ylfingadeild með fjórum sveitum og dróttskátasveitin Sagittarius varð sömuleiðis fjölmenn og hafði margþætt verkefni. Um þessar mundir voru deildarforingjar Kristófer M. Kristinsson og Grímur Valdimarsson, sveitarforingjar Eiríkur Guðmundsson, Magnús S. Magnússon, Helgi Eiríksson, Jón Þór Jóhannsson, Hallvarður Snorri Jóhannsson, Árni Sverrisson, Hlynur Þorsteinssonm Árni Jóhannsson, Gunnlaugur Valdimarsson, Óskar Guðlaugsson, Þorbjörg Árnadóttir, Yngvinn Gunnlaugsson, Sigurður Örn Kristjánsson, Viktor Smári Sæmundsson og skammt í að ný kynslóð tæki við foringjastörfum: Sigurður Halldórsson, Guðmundur Þóroddsson, Bjarni Þ. Lárusson, Örn D. Jónsson, Eiríkur Barðason – hver öðrum þekktari af afreksverkum.

Um þessar mundir fékk skátafélagið tvo útileguskála til afnota; Dalakofann við Elliðavatn og Núpstún við Lækjarbotna. Var margt um manninn á þessum útilegustöðum á árunum 1970 – 1975. Það fór vel á því vegna mikilla húsnæðiserfiðleika félagsins, en úr því rættist ekki fyrr en reist var skátaheimili fyrir Skjöldunga árin 1977 – 1979 og hófst með þeim framkvæmdum alveg nýr kafli í sögu félagsins. Þá var Ferfætlusveit stofnuð og stúlkur gengu í fyrsta sinn í skátafélagið. Fyrsti félagsforinginn lét af störfum árið 1975 og tók þá Ólafur Ásgeirsson, sem var aðstoðarfélagsforingi frá stofnum félagsins, við og gegndi störfum til ársins 1977. Sigmundur Guðmundsson tók við félagsforingjastörfum 1978 og síðan hafa þeir Bjarni Þ. Lárusson, Birgir Thomsen, Óli Kristinsson, Ólafur Ásgeirsson, Helgi Eiríksson, Guðfinnur Pálsson og Sigmundur Guðmundsson, Matthías G. Pétursson og Eíríkur Guðmundsson verið félagsforingjar.

Fyrstu árin í hinu nýja skátaheimili báru merki undangenginna erfiðleikaára en árið 1984 fór að rofa til og ný kynslóð tók við – kynslóð sem var í fremsu víglínu félagsins næsta áratuginn. Enn fremur var starfsemi félagsins endurskipulögð. Hafa Skjöldungar sem fyrr getið sér gott orð á skátamótum og unnið til fjölda verðlauna. Á þessum árum voru við stjórnvölinn Þórður Bogason, Óli Vilhjálmur, Guðfinnur Pálsson, Guðmundur Þór Pétursson, Guðmundur Ármann Pétursson, Jón Grétar Gunnarsson, Hulda Ástþórssdóttir, Katrín Ásgrímsdóttir, Ingibjörg Eiríksdóttir, Ellen Habekost, Soffía Hauksdóttir svo nokkrir séu nefndir. Einnig hafa Skjöldungar átt fulltrúa í helztu ráðum og nefndum á vegum Skátasambands Reykjavíkur og Bandalags íslenzkra skáta.

Árið 1994 var því fagnað með veglegri afmælishátíð í Langholtskirkju að 25 ár voru liðin frá stofnun Skjöldunga. Félagið var um þær mundir í mikill sókn sem segja má að haldizt hafi síðan. Þáverandi sveitarforingjar voru Dagmar Ýr Ólafsdóttir, Sigurður Úlfarsson, Thelma Björk Gunnarsdóttir, Gunnar Björgvinsson, Ólafur Gauti Gunnarsson og Kristján Meldal. Félagið hafði þá einnig fengið til liðs við sig framkvæmdastjóra, Sigurð Guðleifsson ADCC. Þá var Sigmundur Guðmundsson félagsforingi en hann og kona hans Unnur Scheving Thorsteinsson voru mjög virk í starfi Skjöldunga á þessum árum og hvöttu foringja til dáða. Þau eru nú heiðursfélagar Skjöldunga ásamt Björgvin Magnússyni DCC. Þess var ekki skammt að bíða að ný kynslóð sveitarforingja tæki við og má þar á meðal nefna Bjarka Reynisson Hólm, Björn Bragason, Vöku Ágústsdóttur, Tinnu Sigurðardóttur, Þyrí Óskarsdóttur og fleiri sem flest höfðu það sammerkt að hafa starfað skátaflokkum hjá Sigurði Úlfarssyni og Dagmar Ólafsdóttur. Um aldamótin var Guðmundur Þór Pétursson deildarforingi en nú hefur Sigurður Úlfarsson tekið við því starfi. Félagið á tvo útileguskála; Hleiðru við Hafravatn og Kút á hellisheiði, en Helgi Eiríksson og dróttskátasveitin Sagittarius stóðu fyrir umfangsmiklum endurbótum á þeim skála um 1990.

Þess er skammt að bíða að hálf öld verði liðin frá því að fáeinir ungir flokksforingjar sem ekki höfðu aldur til að verða sveitarforingjar sjálfir stofnuðu Skjöldungasveit. Um þessar mundir eru í forystusveit Skjöldungum dugmiklir og áhugasamir skátar sem munu án efa drýgja fjölmargar dáðir á komandi árum. Í dagsbrún nýrrar aldar eru helztu sveitarforingjar Kristján Meldal, Margrét Hanna Bragadóttir, Thelma Björk Gunnarsdóttir, Ragnheiður Jóna Grétarsdóttir, Gunnar Magnússon og Björn Bragson. Félagsforingi er Eiríkur Guðmundsson.

Ólafur Ásgeirsson skátahöfðingi tók saman 1994.
Björn Bragason sveitarforingi Minka samdi viðbætur