Skátarnir ræsa vetrarstarfið:

Vinátta, gleði og sjálfsöryggi

Vetrardagskrá skátanna er að hefjast í skátafélögum um allt land og er auðvelt fyrir börn og ungmenni að byrja í skátunum.  Á nýjum vef – skatarnir.is – velja áhugasamir einfaldlega það skátafélag sem hentar og þeir vilja starfa með og skrá sig. Næstu daga á eftir verður haft samband við þá með nánari upplýsingar.  Víða eru skátafélög með opið hús og kynningar á skátastarfinu og þar er gott að líta við. Þá er Skátamiðstöðin í Hraunbæ opin alla daga og veitir aðstoð og nánari upplýsingar, síminn er 550-9800.

Skátastarf er fyrir alla. Starfinu er aldursskipt til að mæta þörfum ólíkra aldursstiga og það er hægt að byrja á hvaða aldri sem er í skátunum. Skátarnir starfa í jafningja- og jafnaldrahópum, skipa sér í flokka þar sem allir eru virkir þátttakendur. Boðið er upp á reglubundið starf fyrir börn og unglinga frá 7 ára aldri.

Hvað gerir maður í skátunum?

Þegar skátar eru spurðir um hvað þeir geri í skátunum eru svörin fjölbreytt eins og gefur að skilja, en flestir nefna vináttu, „gera alls konar skemmtilegt saman“, spennandi útilegur, skátamót hér heima og erlendis.  Fyrir utan þann mikla ávinning að eignast góða vini nefna sumir að þeir hafi náð að losa sig við feimnina , hvort sem það var á stórri kvöldvöku eða í umræðu í skátaflokkunum.

 

Virkni og þátttaka eru galdurinn í skátastarfi. Það eru skátarnir sjálfir sem ákveða hvað þeir vilja fást við, hvort þeir fari í útilegur og ferðalög, syngi eða  spili tónlist, klífi fjöll, leiki leikrit eða sigli á kajökum, tálgi, dansi eða byggi snjóhús. Aðalatriðið er að þeir skipuleggja sitt eigið starf sem byggir á gildum skátanna.

 

Skátarnir læra að sýna  sjálfum sér, öðrum og umhverfinu virðingu. Þeir fá þjálfun í að taka tillit til skoðana og tilfinninga annarra, auk þess að vera skapandi og sjálfstæðir í hugsun, orði og verki. Þeir eru hvattir til að gera sitt besta og hræðast ekki að gera mistök, sem og að lifa heilbrigðu lífi og vera traustir félagar og vinir.

 

Vönduð dagskrá

Íslenska skátahreyfingin hefur á liðnum árum farið í gegnum gefandi sjálfskönnun og er að byggja upp starfsgrunn sinn, styrkja skátaflokkana sem vettvang fyrir sameiginlega ákvörðunartöku jafnaldra, auk þess sem leiðtogaþjálfunin hefur verið efld og fullorðnum einstaklingum er boðið að taka virkari þátt í skátastarfinu.  Skátarnir eru alþjóðleg hreyfing og þeir njóta góðs af erlendum fyrirmyndum sem hafa verið aðlagaðar íslenskum aðstæðum. Vandaðar dagskrárbækur og handbækur fyrir skátaforingjana hafa verið gefnar út og unnið er að innleiðingu á nýjum áherslum í starfi skátafélaganna um allt land.  Breytingarnar hafa þegar skilað sér í betra skátastarfi.

Skátarnir eru fyrir alla frá 7 – 107 ára

Skátahreyfingin er uppeldishreyfing og er skátastarfið aldursskipt til að mæta mismunandi þörfum. Útfærslur, siðir og venjur eru að einhverju breytilegar milli skátafélaga, en markmiðin eru þau sömu.

 

Hægt er að byrja í skátunum á hverju þessara aldursstiga:

 

7 – 9 ára. Ævintýri, leikir og verkefni gegna mikilvægu hlutverki í skátastarfinu á þessu aldursstigi sem kallað er drekaskátar.  Skátarnir tileinka sér hjálpsemi og glaðværð, sjálfstæði og tillitssemi, ábyrgð og að bera virðingu fyrir náttúrunni. Þeir hittast að jafnaði vikulega, fara í leiki og læra nýja hluti innan- og utandyra. Auk þess fara þeir í dagsferðir og styttri leiðangra í þéttbýlinu og nágrenni þess.

 

10 – 12 ára. Fálkaskátar, eins og þetta aldursstig er kallað, starfa í 5-7 manna flokkum jafnaldra sem hittast vikulega. Þeir velja sér spennandi verkefni að fást við og njóta leiðsagnar fullorðinna foringja.

Nokkrir flokkar mynda skátasveit sem vinnur saman að margskonar spennandi verkefnum og fer saman í ferðir og útilegur, jafnt sumar sem vetur.  Verkefnin og ferðirnar eru leið skáta til að auka þekkingu og færni og búa skátana undir lífið.

 

13 – 15 ára.  Dróttskátar starfa einnig 5 – 7 skáta flokkum og hittast einu sinni til tvisvar í viku. Hópurinn vinnur verkefni að eigin vali, eitthvað sem skátunum finnst spennandi – flóknara er það ekki!   Þátttaka í ákvörðunum og undirbúningi meiri en hjá þeim yngri. Í félagsskap jafnaldra fara þeir saman í ferðir og útilegur.

 

16 – 18 ára.  Rekki merkir „maður” í Hávamálum og þetta aldursstig kallast rekkaskátar. Margir rekkarskátar vinna að Forsetamerkinu í sínu starfi.  Þeir stunda útilíf jafnt á láglendi sem hálendi allan ársins hring og nýta sér fjölbreyttar leiðir og farartæki. Alþjóðastarfið kemur hér inn í auknum mæli og Rekkaskátum bjóðast margvísleg tækifæri.

19 – 22 ára starfið kallast róver og er alþjóðlegt enda er starfsvettvangur róverskáta heimurinn allur!  Ferð skátanna ræðst nú alfarið af þeirra eigin áhuga, hvort sem það er foringjastarf, starf með björgunarsveit, sjálfboðaliðastarf í Afríku eða annað. Leiðtogaþjálfun skátahreyfingarinnar skilar sér í frumkvæði, sjálfstæði og vináttu í raun.

23+.  Fullorðnir skátar taka margir hverjir að sér að leiða starf sinna skátafélaga, eru sveitarforingjar, þátttakendur í björgunarsveitum eða sinna ýmsum ábyrgðarstörfum innan skátahreyfingarinnar. Mjög margir mæta þegar mikið stendur til og eru öflugir bakhjarlar á stórmótum eða viðburðum sinna skátafélaga.  Þá hefur það færst í vöxt að foreldrar skáta byrji í skátastarfi án þess að hafa verið skátar á unga aldri. Skátahreyfingunni er mikill fengur í virkum foreldrum og þar hefur oft sannast hið forkveðna að glöggt er gests augað.

Hafðu samband og kannaðu málin, www.skatarnir.is eða í síma 550-9800 við hlökkum til að sjá þig.